Fimm tónskáld semja fyrir Hljóðverk 21/22 í Salnum
Tónskáldin Gunnar Gunnsteinsson, Ingibjörg Friðriksdóttir, Ríkharður H. Friðriksson, Úlfur Eldjárn og Þóranna Dögg Björnsdóttir voru valin úr hópi tuttugu og átta umsækjenda til að semja hljóðverk fyrir Salinn.
15. júní, 2021
Fimm tónskáld hafa verið valin til að semja hljóðverk fyrir Salinn. Yrkisefnin tengjast öll á einhvern hátt Kópavogi svo sem hljóðheimur pípulagna, innri og ytri hljóðheimur kvennafangelsisins, raddir gamalla og nýrra Kópavogsbúa og Hamraborgar bolero fyrir sjö trommuleikara.

Tónskáld með fjölbreyttan bakgrunn

Tónskáldin Gunnar Gunnsteinsson, Ingibjörg Friðriksdóttir, Ríkharður H. Friðriksson, Úlfur Eldjárn og Þóranna Dögg Björnsdóttir voru valin úr hópi tuttugu og átta umsækjenda til að semja hljóðverk fyrir Salinn.

Er þetta annað árið í röð sem Salurinn kallar eftir umsóknum í ný verk en í maí síðastliðnum voru fjórir strengjakvartettar frumfluttir á Tíbrá tónleikum sem hluti af þessu tónskáldaverkefni Salarins. Markmiðið er sem fyrr að stuðla að frumsköpun í tón- og hljóðverkagerð og að kynna íslensk tónskáld.

Tónskáldin munu að þessu sinni semja tíu til fimmtán mínútna hljóðverk sem innblásið er  af sögu- og/eða samtíma hljóðheimi Kópavogs. Héraðsskjalasafn Kópavogs verður tónskáldunum innan handar við aðgengi að gögnum gerist þess þörf.

Yrkisefni tónskáldanna koma úr ýmsum áttum en Gunnar Gunnsteinsson mun byggja verk sitt á hljóðupptökum af pípulögnum Kópavogsbæjar, Ingibjörg Friðriksdóttir mun flétta í verki sínu hljóðheim kvennafangelsisins með minningarbrotum og upplifunum fyrrum fanga og starfsfólks, Ríkharður H. Friðriksson mun flétta saman nýjum og gömlum röddum Kópavogsbúa á meðan Úlfur Eldjárn mun semja óð til nokkurra af merkustu og háværustu afkomenda Kópavogs – trommuleikaranna. Afraksturinn verður Hamraborgar bolero með tíu trommuleikurum og Þóranna Dögg Björnsdóttir mun tefla saman frjálsum hljóðheimi bæjarins við lokaðan heim kvennafangelsisins í leit að samhengi ef eitthvert er þar á milli.

Í valnefnd sátu Karólína Eiríksdóttir fyrir Tónskáldafélag Íslands og Atli Ingólfsson og Una Sveinbjarnardóttir fyrir Salinn.

Gunnar Gunnsteinsson
er tónskáld og tónlistarmaður með BA próf í tónsmíðum frá Amsterdam. Hann hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir, sviðsverk, innsetninga og gjörninga og komið víða fram sem tónlistarmaður með ótal hljómsveitum

Ingibjörg Friðriksdóttir
lauk meistaragráðu í tónsmíðum og upptökutækni frá Mills College í Kaliforníu og hefur gert hljóðverk og innsetningar af ýmsu tagi þar sem unnið er með brotakenndar upplifanir, minningar og tjáningu. Í nýjasta verki hennar, Meira Ástandið (Listahátíð í Reykjavík, 2020 – 2021) sótti hún yrkisefnið til veruleika íslenskra kvenna á hernámsárunum.

Ríkharður H. Friðriksson
hóf ferilinn í rokktónlist en stundaði síðar nám í tónsmíðum í Reykjavík, New York, Sienna og Haag. Hann er einn af frumkvöðlum á sviði raftónlistar á Íslandi og hefur samið sæg tónverka fyrir ólík tilefni. Ríkharður kennir tónsmíðar við Tónlistarskólann í Kópavogi og Listaháskóla Íslands auk þess að vera liðsmaður Iceland Sound Company og Fræbblanna.

Úlfur Edjárn
lauk BA námi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað sem tónlistarmaður, tónskáld, upptökustjóri og hljóðfæraleikari frá unga aldri. Hann hefur fengist við flestar tegundir tónlistar, popp, raftónlist, djass, klassík og tilraunakennda nútímatónlist.

Þóranna Dögg Björnsdóttir
lauk BA gráðu í hljóð- og myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006. Viðfangsefni hennar eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Verk hennar eru iðulega sambland af mynd og hljóði; taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar og hljóðverk.

Hljóðverk 21 /22 er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar og unnið í samvinnu við Héraðsskjalasafn Kópavogs og Tónverkamiðstöð Íslands.