Verið velkomin á sumarsýningu á teikningum Ránar Flygenring í gluggum Náttúrufræðistofu Kópavogs. Hægt er að njóta sýningarinnar hvort tveggja að utan og innan. Sýningin fléttast einnig inn í dagskrá Barnamenningarhátíðar í Kópavogi dagana 20. apríl – 14. júní.
Árið 2017 kom út hjá bókaforlaginu Angústúru bókin Fuglar, sérdeilis skemmtileg og óhefðbundin fuglafræðibók fyrir fólk á öllum aldri eftir þau Rán Flygenring og Hjörleif Hjartarson. Helstu sérkenni fugla eru þar dregin fram í máli og myndum og finna má alls konar áhugaverða fróðleiksmola um veröld íslensku fuglanna, þeirra sem búa hér árið um kring og þeirra sem staldra skemur við.
Í gluggum Náttúrufræðistofu gefur nú að líta 24 teikningar Ránar Flygenring sem fyrst birtust í þessari bók og hefur Rán aðlagað teikningar sínar að sýningunni.
Sjá má fugla af öllum stærðum og gerðum sem eiga það sammerkt að teljast til íslenskra fugla. Krúttaralega glókolla og flennistórar álftir, sandlóur í sjálfsvorkunnarkasti og snjótittling sem veltir því fyrir sér hvort grasið sé ekki grænna hinum megin....
Í bókinni eru fuglar flokkaðir í sjö yfirflokka: vatnafugla, mávfugla, sjófugla, spörfugla, vaðfugla, hænsnfugla/dúfur og ránfugla og er getið um þessa yfirflokka og heiti fuglanna á teikningunum. Að öðru leyti tala teikningarnar sínu fuglamáli.
Rán Flygenring er sjálfstætt starfandi listamaður. Hún nam hönnun við Listaháskóla Íslands og síðar við Listaháskólann í Osló. Hún hefur tekið þátt í ótal sýningum, gefið út fjölda bóka og hlotið ótal verðlaun og verðlaunatilnefningar fyrir verk sín, þar á meðal fyrir teikningarnar í bókinni Fuglar.
Ókeypis er á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Opið er frá 11 - 17 mánudaga - laugardags.